Sunnudagur, 21 Október 2012 17:20

Silfur á Norður Evrópumeistaramótinu

Landslið Íslands í áhaldafimleikum keppti nú um helgina á Norður Evrópumeistaramótinu sem fór fram í Glasgow, Skotlandi.  Í gær, laugardag 20.október, fór fram fjölþraut og sveitakeppni þar sem kvennalandsliðið lenti í 5.sæti með 144,450 stig en Wales stóð uppi sem sigurvegari með 157,500 stig, Svíþjóð og Skotland komu þar á eftir.  Karlalandsliðið lenti aftur á móti í 7.sæti þar sem Finnland bar sigur úr býtum en Noregur og Wales komu þar á eftir.  Í fjölþraut karla stóð Daninn Helge Vammen uppi sem sigurvegari en bestum árangri íslendinga náði Sigurður Andrés Sigurðsson sem lenti í 17.sæti. Í fjölþraut kvenna var það Ida Gustafsson frá Svíþjóð sem stóð uppi sem sigurvegarinn en bestum árangri íslensku stelpnanna náði Dominiqua Alma Belányi sem lenti í 9.sæti.

Í dag, sunnudaginn 21.október, fór svo fram úrslit á einstökum áhöldum þar sem Ísland átti þrjá fulltrúa, Ólaf Gunnarsson sem keppti í úrslitum á 3 áhöldum, Tinnu Óðinsdóttur og Thelmu Rut Hermannsdóttur.  Ólafur og Tinna gerðu sér lítið fyrir og unnu bæði til silfurverðlauna, Ólafur á bogahesti en Tinna á jafnvægisslá.  Ólafur átti frábærar æfingar á bogahesti sem skiluðu honum 13,675 stigum og var Ólafur sjónarmun á eftir Dananum Helge Vammen sem sigraði með 13,875 stig.  Ólafur lenti svo í 4.sæti á svifrá og í 6.sæti í hringjum, sannarlega frábær árangur hjá þessum glæsilega fimleikamanni.  Í kvennaflokki keppti Thelma Rut í úrslitum í stökki og lenti þar í 9.sæti.  En Tinna Óðinsdóttir stóð uppi með 2.sæti á jafnvægisslá með 12,900 stig en Jessica Hogg frá Wales sigraði með 13,300 stig. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá Ólaf og Tinnu með silfurverðlaun sín. 

Myndasafn

{gallery}102{/gallery}