Miðvikudagur, 30 Ágúst 2017 11:09

Aga- og siðanefnd vinnur fyrir iðkendur

Velferð iðkenda í fimleikum er okkur öllum mikilvæg. Í gegnum félögin höfum við fundið fyrir þörfinni á því að hafa leiðbeinandi vettvang fyrir félögin til að ná þessu markmiði. Fimleikasambandið hefur í því sambandi skipað Aga- og siðanefnd FSÍ sem hefur það að markmiði að huga að og stuðla að jákvæðri líkamlegri og andlegri velferð iðkenda okkar. Nefndin hefur sett fram drög að siðareglum sem birtar verða á næstu vikum. Reglurnar eru lifandi plagg sem er í sífelldri vinnslu, iðkendum okkar til hagsbóta.

Nefndina skipa; 


Lína Ágústsdóttirhéraðsdómslögmaður og formaður nefndarinnar


Una Emilsdóttir, læknir


Hildur Skúladóttir, BSc í sálfræði

Nefndin hefur leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu með eftirfylgni og brotum á siðareglunum. Þá mun viðbragðsteymi nefndarinnar segja til um hvaða aðgerða skuli gripið ef fram kemur kvörtun, rökstuddur grunur eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi í fimleikafélagi í samræmi við skriflega viðbragðsáætlun, sem birt verður á næstu vikum. 

Siðareglurnar hafa það að markmiði að; 

  • draga úr eða koma í veg fyrir að slíkar aðstæður komi upp í fimleikafélagi, sem leitt geti til eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis;
  • stuðla að gagnkvæmri virðingu innan fimleikafélags, með því að auka vitund og skilning á að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi er hegðun sem er óheimil innan fimleikafélags;
  • gripið verði til aðgerða í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði innan fimleikafélags, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi innan fimleikafélags; og
  • gripið verði til aðgerða í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði innan fimleikafélags, verði formanni hlutaðeigandi fimleikafélags gert vart við af aga- og siðanefnd FSÍ að fram hafi komið kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um einelti, kynferðislegt ofbeldi, kynbundna áreitni eða ofbeldi innan fimleikafélags eða ágreining í samskiptum umsjónaraðila og iðkanda sem líkur eru á að leitt geti til slíkrar hegðunar verði ekki gripið til aðgerða.