Mánudagur, 05 Mars 2018 16:58

Mikill fjöldi og fjölbreytni á bikarmóti

Heimastúlkur frá Selfossi Heimastúlkur frá Selfossi

Bikarmót Fimleikasambands Íslands í 3. - 5. flokki í hópfimleikum fór fram á Selfossi um helgina en þar tóku um 900 börn þátt í 10 mismunandi flokkum.

Vegna gríðarlegs fjölda liða í bikarkeppninni á síðasta ári, var brugðið á það ráð í ár að skipta bikarmóti FSÍ upp í 2 keppnishelgar. Annarsvegar 3. - 5. flokk og hinsvegar 2. - meistaraflokk. Þetta var gert til þess að ekki þyrfti að byrja að keppa á virkum dögum.  Nú hefur fjölgun hinsvegar verið svo mikil að nú þegar er fyrri hlutinn sem fram fór um helgina orðinn stærri en hann var áður en mótinu var skipt upp.

Þrettán félög sendu lið til keppni og svo skemmtilega vildi til að níu félög unnu til gullverðlauna. Það var því einungis eitt félag sem vann til tveggja gullverðlauna en að öðru leiti skiptu félögin gullverðlaununum bróðurlega á milli sín.

Það er frábært til þess að vita að áhuginn á fimleikum sé alltaf að aukast og brosið skein af hverju andliti um helgina en skemmtileg stemmning myndaðist á mótinu og heppnaðist mótahald vel og eiga Selfyssingar og dómarar mótsins heiður skilinn fyrir sitt framlag um helgina. 

Úrslitin frá mótinu má sjá hér fyrir neðan.