Mánudagur, 12 Mars 2018 15:21

Um 600 börn kepptu á fimleikamótum helgarinnar

Gríðarleg aukning hefur verið í iðkendafjölda í fimleikum síðustu árin og verður mótahald þar að leiðandi sífellt umsvifameira og fjölbreyttara. Síðastliðna helgi fóru fram þrjú mót hjá þremur mótshöldurum á höfuðborgarsvæðinu þar sem um 600 iðkendur spreyttu sig.

Umfangsmesta mótið fór fram í Íþróttafélaginu Gerplu, þar sem stúlkur kepptu á Bikarmóti í 4. og 5. þrepi. Í fimleikadeild Ármanns fór einnig fram Bikarmót þar sem keppt var í 4. og 5. þrepi drengja. Bikarmót sker sig frá öðrum mótum í áhaldafimleikum að því leiti til að þetta er eina keppnin í áhaldafimleikum þar sem keppt er í liðum. Að lágmarki eru þrír í liði og að hámarki fimm, en einungis þeir þrír með hæstu einkunn telja til stiga á hverju áhaldi. Mótið er einstaklega skemmtilegt og jákvæð upplifun fyrir keppendur að keppa með liðsfélögum sínum.

Úrslit mótsins má nálgast hér. 

Að Varmá hélt Fimleikadeild Aftureldingar Bikarmót í Stökkfimi. Um helgina var í fyrsta skipti verið að keppa eftir nýjum reglum í stökkfimi og voru félögin því að aðlaga sig að breyttu fyrirkomulagi. Í stökkfimi er keppt á hópfimleikaáhöldunum dýnu og trampólíni og gera keppendur tvö stökk á hvoru áhaldi. Þá er framkvæmt eitt stökk á trampólíni og eitt á hesti og á dýnustökki er eitt stökk framkvæmt fram á við og eitt aftur á bak. Fyrirkomulagið er því líkt og í hópfimleikum að undanskildum gólfæfingunum. Stökkfimi er frábær vettvangur fyrir félög sem ná ekki í lið í hópfimleikum eða þá sem vilja einungis keppa á stökkáhöldum og er eitt tækið sem Fimleikasambandið hefur í verkfærakistunni til að gera fimleika aðgengilega fyrir alla. 

Úrslit mótsins má nálgast hér.

Við þökkum mótshöldurum kærlega fyrir góða vinnu og afnot af húsnæði þeirra. 

Við vonum að upplifun keppenda hafi verið góð og óskum um leið öllum keppendum til hamingju með árangurinn. 

#fimleikarfyriralla