Mánudagur, 12 Mars 2018 11:29

Úrvalshópar FSÍ sameinast á Fræðslukvöldi

Í ljósi þess að við viljum ávallt verða betri í fimleikahreyfingunni stóð Fimleikasambandið fyrir tveimur fræðslukvöldum fyrir alla þá sem eiga sæti í úrvalshópum bæði í áhaldafimleikum og hópfimleikum. Félögin höfðu einnig möguleika á að senda iðkendur sem þeir telja að geti átt sæti í úrvalshóp en hafa ekki átt heimangengt í úrtökur vegna meiðsla eða vegna annara ástæðna. Auk þess var þjálfurum afrekshópa í félögunum boðið að koma, endurgjaldslaust. 

Seinna fræðslukvöldið fór fram í húsakynnum ÍSÍ í gær þar sem Agnes Þóra Árnadóttir, næringafræðingur í fagteymi FSÍ leiðbeindi iðkendum um mikilvægi þess að borða hollt og næringaríkt mataræði, ásamt því hvað er gott að borða til að ná hámarksárangri.


Agnes Þóra Árnadóttir, næringafræðingur

Dr. Sigríður Lára Guðmundsdóttir, íþróttafræðingur og dósent við Háskólann í Reykjavík hélt erindi um áhrif svefnleysis á frammistöðu í íþróttum og hvernig svefn hefur áhrif heilsu og almenna vellíðan.


Dr. Sigríður Lára Guðmundsdóttir, íþróttafræðingur

Rakel Davíðsdóttir sálfræðingur frá Líf og Sál, fór yfir ofbeldi í íþróttum og ýmsar birtingamyndir þess, ásamt því að farið var yfir viðbragðsáætlun, siðareglur FSÍ og hvaða úrræði eru í boði.


Rakel Davíðsdóttir, sálfræðingur

Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík átti lokaorðin. Hún ræddi um sjálfstraust og hugarþjálfun og kenndi iðkendum ýmsar aðferðir við að styrkja og bæta þessa eiginleika.


Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur

Fyrra fræðslukvöldið var haldið 11. mars síðastliðinn, þar sem dagskráin var sérstaklega miðuð að þeim sem eru að vinna sig upp úr meiðslum. Þar hélt Margrét Lára Viðarstóddir, landsliðskona í knattspyrnu og mastersnemi í klínískri sálfræði, erindi um hugarfar og áskoranir íþróttamanna sem eru að vinna sig upp úr meiðslum. Sjúkraþjálfararnir Sandra Dögg Árnadóttir, fyrrum landsliðsþjálfari í áhaldafimleikum og Þórdís Ólafsdóttir, landsliðskona í hópfimleikum leiðbeindu iðkendum einnig um það hvernig best væri að vinna sig upp úr meiðslum.

Við vonum að allir iðkendur hafi notið góðs af og hagnýti þá þekkingu sem þeir öfluðu sér um helgina. Við erum stolt af því að eiga svona flott íþróttafólk í okkar hreyfingu sem lætur sér það varða að fræðast og leggur sig fram við að verða betri á öllum sviðum. 

Áfram Ísland
#fyririsland
#fimleikarfyriralla