Fimmtudagur, 15 Mars 2018 09:42

WOW Bikarmót í beinni útsendingu á RÚV á laugardag!

Um helgina fer fram Bikarmót í hópfimleikum þar sem meistaraflokkur og 1. - 2. flokkur munu etja kappi. Mótið fer fram laugardag og sunnudag í íþróttahúsinu Ásgarði, Garðabæ. 

Á laugardag mun mótið vera sýnt í beinni útsendingu á RÚV og mun útsending hefjast kl. 16:00. Útsendingu lýkur kl. 17:30 þegar Bikarmeistarar í meistaraflokk og 1. flokk 1 hafa verið krýndir. Stjarnan og Gerpla munu berjast um sigur, Stjarnan er núverandi Bikarmeistari og mun freista þess að verja titilinn. Gerpla kom á óvart á síðasta ári og endurheimti íslandsmeistaratitlinn sem dvalið hafði í Garðabæ í tvö ár, nú er markmiðið að koma Bikarnum til baka i Kópavoginn líka. Þetta verður spenna frá upphafi til enda og sannkölluð fimleikaveisla í vændum.

Mikil spenna verður í keppni í 1. flokk þar sem liðin geta unnið sér inn keppnisrétt á Norðurlandamóti unglinga sem fram fer í Finnlandi 14. apríl næstkomandi. Alls eru tvö mót sem telja til stiga og er mótið það síðara í röðinni. Lið Gerplu sigraði fyrra mótið, Toppmót sem fram fór þann 24. febrúar síðastliðinn og tryggði sér þar með 7 stig. Lið Stjörnunnar var í öðru sæti og fékk 5 stig og lið Fjölnis í því þriðja sem fékk 4. Alls fara tvö lið til Finnlands í stúlknaflokki en drengjalið Stjörnunnar hefur þegar tryggt sér farmiða á mótið.

Við hvetjum alla til að koma og horfa á mótið og hvetja okkar besta fimleikafólk til dáða. 

Hér má sjá mótaskipulag helgarinnar.

#fyririsland
#fimleikarfyriralla