Miðvikudagur, 28 Mars 2018 22:24

Fimleikaveisla í Höllinni

Þá er loksins að koma að því sem við höfum öll beðið eftir, Laugardalshöll verður breytt í paradís fyrir okkur sem elskum fimleika, þegar Íslandsmótin í hópfimleikum og áhaldafimleikum fer fram.


Miðasala á TIX.IS 


Fimmtudaginn 5. apríl keppir okkar besta hópfimleikafólk um Íslandsmeistaratitilinn og verður spennandi að sjá hvort kvennaliði Stjörnunnar tekst að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn eða munu Gerplukonur verja hann frá síðasta ári. Tvö karlalið etja kappi og verður það í fyrsta skipti sem það gerist í meistaraflokki á Íslandi. 

7 lið unnu sér inn keppnisrétt í ár, 4 kvennalið, 2 karlalið og blandað lið Stjörnunnar.

Íslandsmót í hópfimleikum - Fimmtudagur

Húsið opnar kl. 18:30
Mótið hefst kl. 19:15

Við búumst við æsispennandi keppni og brjálaðri stemningu úr stúkunni. EM í hópfimleikum fer fram í október og eru landsliðsþjálfarar að velja í landsliðshópa þessa dagana, því  extra mikil spenna í loftinu. 

 

Laugardaginn 7. apríl fer fram keppni í fjölþraut í áhaldafimleikum og í úrslitum á einstökum áhöldum sunnudaginn 8. apríl. 

Í áhaldafimleikum má búast við spennandi keppni þar sem allt okkar besta fimleikafólk er í toppformi, enda eitt stærsta landsliðasumar aldarinnar framundan og í áhaldaúrslitum á sunnudag má búast við flugeldasýningu þar sem „allt eða ekkert“ viðhorfið er allsráðandi.

Í karlaflokki verður gaman að sjá hvort strákarnir sem hafa tekið miklum framförum undanfarið ár nái að velta Valgarð, núverandi Íslandsmeistara, úr toppsætinu. Í kvennaflokki má búast við keppni aldursforsetanna. Agnes Suto-Tuuha, Dominiqua Alma Belányi og Irina Sazonova hafa verið í sérflokki undanfarin ár en þær eru allar á 26 aldursári sem mun fara í sögubækurnar. Reynslan mun reynast dýrmæt því að í ár eru margar af efnilegustu fimleikakonum landsins að stíga sín fyrstu skref í keppni í meistaraflokki og munu án efa láta til sín taka meðal þeirra bestu.

 
Íslandsmót í áhaldafimleikum - Laugardagur

Húsið opnar kl. 12:30
Mótið hefst kl. 13:15


Íslandsmót í áhaldafimleikum  - Sunnudagur

Húsið opnar kl. 14:00
Mótið hefst kl. 14:30

Fimleikaveislan í Höllinni verður frábær skemmtun, sem kemur til með að bjóða upp á spennu, tilþrif og tilfinningar á mögnuðu 50 ára afmælisári Fimleikasambandsins.

Við hlökkum til að njóta samverunnar og gleðinnar með ykkur, þeir sem hafa áhuga á að leggja okkur lið endilega sendið okkur línu á fsi@fimleikasamband.is - við þurfum alltaf á auka höndum að halda þegar mikið stendur til!

#fimleikarfyriralla