Fimmtudagur, 05 Apríl 2018 23:11

Stjarnan endurheimti titilinn

Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í glæsilegri umgjörð í Laugardalshöll í kvöld.

Í kvennaflokki var gríðarlega hörð keppni milli Gerplu og Stjörnunnar þar sem Stjarnan freistaði þess að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn í fjölþraut. Að lokum fór það svo að Stjarnan stóð uppi sem Íslandsmeistari en einungis munaði 0.600 stigum á lokaeinkunn liðanna og má segja að sigurinn hafi unnist á dýnu þar sem heilu stigi munaði á liðunum, Stjörnunni í hag, sem varð þar með Íslandsmeistari á dýnu. Á gólfi var Gerpla með 19.800 stig, 0.300 stigum hærra en Stjarnan og þar með Íslandsmeistari á gólfi og á trampólíni, þar voru liðin þó jöfn með 16.200 stig en Gerpla varð Íslandsmeistari með hærri E-einkunn.

Í þriðja sæti varð svo Stjarnan B.

Blandað lið Stjörnunnar var eitt í keppni en stóð sig gríðarlega vel með 47.900 stig, 16.950 stig á gólfi, 15.400 stig á dýnu og 15.550 á trampólíni.

Í karlaflokki áttust Stjarnan og Gerpla við þar sem Gerpla varð Íslandmeistari með 47.100 stig, 15.800 stig á gólfi, 16.850 stig á dýnu og 14.450 stig á trampólíni.