Mánudagur, 16 Apríl 2018 16:39

Glæsilegt Norðurlandamót að baki

Norðurlandamót unglinga í hópfimleikum fór fram í Joensuu í Finnlandi á laugardaginn var.

Ísland sendi 3 lið til keppni, stúlknalið Gerplu, stúlkna og drengjalið frá Stjörnunni og ekkert lið í flokki blandaðra liða en Ísland á rétt á tveimur sætum í hverjum flokki.

Æfingar á föstudag gengu að mestu vel en liðin áttu flest í nokkrum vandræðum með að stilla sig af á trampólíni. Þessi vandræði gerðu einnig vart við sig í keppninni á laugardag en heilt á litið þá gekk keppnin vel og var ekki síður lærdómsrík fyrir komandi verkefni en flestir keppendanna, ef ekki allir, stefna á að vinna sér sæti í landsliðum fyrir EM í Portúgal í haust.

Gerpla hafnaði í 4. sæti og Stjarnan í því 5. í stúlknaflokki og í drengjaflokki hafnaði Stjarnan í 7. sæti.

Dómarar í ferðinni voru þau Íris Svavarsdóttir, Olga Bjarnadóttir, Ágústa Dan Árnadóttir og Ragnar Magnús Þorsteinsson en Ragnar var í sínu fyrsta verkefni sem alþjóðlegur dómari í hópfimleikum.

Þegar upp var staðið var það glæsilegur og glaður hópur sem kvaddi Joensuu á sunnudagsmorgun. Finnar héldu glæsilegt mót þar sem ekkert var sparað í umgjörð og utanumhaldi um keppendur og var mótahald allt til fyrirmyndar.

Myndir í frétt: Joenvoli Telinevoimistelu, Finnlandi