Föstudagur, 20 Apríl 2018 20:11

Jónas og Martin í úrslit á stökki

Íslenska drengjalandsliðið, sem skipar þá Ágúst Inga Davíðsson, Breka Snorrason, Jónas Inga Þórisson og Martin Bjarna Guðmundsson, hefur lokið keppni á Junior Team Cup í Berlin eða Berlin Cup eins og það er jafnan kallað.

Strákarnir hófu keppni á bogahest og gekk það vægast sagt brösulega en aðeins Martin Bjarni komst í gegnum bogahestsæfingarnar án falls.  Möguleikar liðsins í liðakeppninni voru því fyrir bí en strákarnir stóðu sig vel á sínum áhöldum það sem eftir lifði keppni. Greinilegt að fallkvótinn var að mestu tæmdur á bogahesti.

Mótið var gríðarlega sterkt og sáust ótrúleg tilþrif á flestum áhöldum í dag. Það er því til mikils að hlakka á EM í ágúst ef sýnishornið á mótinu í dag gefur einhverjar vísbendingar.

Að öðrum liðsmönnum Íslands ólöstuðum þá stendur árangur Jónasar og Martis á stökki uppúr í dag en báðir komust þeir í úrslit í sínum aldursflokki. 

Úrslitin hefjast klukkan 12:00 á íslenskum tíma á morgun.