Print this page
Mánudagur, 14 Maí 2018 14:31

Settu með okkur HEIMSMET í handstöðu á fimmtudag!

Í tilefni af 50 ára afmæli Fimleikasambands Íslands langar okkur að setja HEIMSMET í handstöðu. 

Okkur langar til að bjóða öllum sem stunda fimleika af einhverju tagi á Íslandi að fagna með okkur afmælinu og standa á höndum með okkur. Við höfum nú þegar haft samband við Guinness world records um að fá metið staðfest.
Við stefnum á að ná að minnsta kosti 500 manns, og ef við þekkjum ykkur rétt þá förum við létt með þetta. Núverandi met er 399 manns.

Tilraunin fer fram á afmælisdaginn 17. maí og er mæting kl. 18:00 í Laugardalshöll. Eftir að metið hefur verið slegið (við náum því að sjálfsögðu) bjóðum við öllum í köku í anddyri Laugardalshallar.

Hér má sjá nánari dagskrá:

Kl. 18:00 Mæting í Laugardalshöllina.
Kl. 18:00 - 18:30 Skráning á þátttakendum (fullt nafn og kennitala) fyrir heimsmetabók Guinness.
Kl. 18:30 - 19:00 Æfing tekin inn í salnum með drónum og myndavélum til að senda til Guinness.
Kl. 19:00 Skrifað undir samning með borgarstjóra á EuroGym sem haldið verður á Íslandi 2020.
Kl. 19:15 Bein útsending frá RÚV þegar heimsmetið er slegið.
Kl. 19:30 Öllum er boðið í afmælisköku í andyrinu.

Vonumst til að sjá sem flesta!
#fimleikarfyriralla