Þriðjudagur, 19 Júní 2018 14:36

Hardy Fink frá FIG hélt fyrirlestur fyrir íslenska fimleikaþjálfara

Á dögunum kom til okkar helsti fræðslusérfræðingur Alþjóða Fimleikasambandsins (FIG), Hardy Fink.

Hardy er maðurinn á bak við fræðslukerfi FIG og hefur byggt kerfið markvisst upp síðustu áratugina. Hann hefur ferðast út um allan heim með fræðslu og ráðgjöf á vegum FIG og vorum við svo heppin að hann gat gefið sér tíma til að koma til Íslands. Fimleikasambandið í samstarfi við fræðslunefnd sótti um styrk fyrir komu Hardy og lögðu sig fram við að gera upplifun hans ógleymanlega. 

Hardy var með tvö fyrirlestrakvöld fyrir íslenska þjálfara, en öllum félögum á landinu var boðið að sitja fyrirlestarana endurgjaldslaust. Fyrirlestrarnir voru vel sóttir af þjálfurum úr öllum greinum innan fimleikanna, en tæplega 60 manns allstaðar að af landinu gáfu sér tíma í að koma og hlusta á hann. Málefnin sem tekin voru fyrir voru aflfræði, skipulagning, andlegur undirbúningur keppenda, ásamt ákefð í æfingum ungra barna.

Fyrirlestrarnir eru hluti af sérgreinanámskeiði 3A hjá FSÍ en námskeiðinu verður framhaldið í janúar 2019.

Hardy gaf sér einnig tíma í að kíkja á landsliðsæfingar sjá karlaliðinu og fór á úrvalshópaæfingu drengja í áhaldafimleikum þar sem hann gaf í kjölfarið ráð varðandi fræðslu og uppbyggingu.

Við þökkum þeim sem komu á fyrirlestrana og að sjálfsögðu þökkum við Hardy Fink kærlega fyrir komuna.