Þá er keppni lokið í forkeppni fyrir Ólympíuleika ungmenna sem fram fara í Buenos Aires í Argentínu í október á þessu ári.
Mótið fór fram í Baku í Azerbajan en heimamenn eru orðnir alvanir alþjóðlegu mótahaldi og aðstaðan til fimleikaiðkunar öll hin glæsilegasta.
Evrópa á alls 17 sæti í kvennakeppninni í Argentínu og 17 í karlakeppninni. Ísland hafði hinsvegar þegar fengið úthlutað sæti í karlaflokki vegna smæðar okkar en strákarnir þurftu samt að taka þátt í forkeppninni til að virkja sætið og þar með keppa í lokamótinu. Stelpurnar þurftu hinsvegar að freista þess að vera meðal 17 efstu til að eiga kost á að fara til Argentínu.
Vigdís Pálmadóttir og Emilía Björt Sigurjónsdóttir skipuðu lið Íslands í stúlknaflokki. Emilía gat ekki keppt vegna meiðsla en tók þátt í undirbúningnum og lokaæfingunni og sú reynsla gerði hana enn ákveðnari í að ná sér fyrir Evrópumótið sem fram fer í Glasgow í ágúst. Vigdís byrjaði vel á stökki en hefði viljað gera betur á slá og tvíslá. Hún endaði mótið þó á góðum nótum með fínni gólfæfingu og hafnaði í 30. sæti af 41 keppanda.
Í drengjaflokki voru það Jónas Þórisson og Martin Bjarni Guðmundsson sem kepptu fyrir Íslands hönd. Strákarnir lögðu allt í þetta þrátt fyrir að sæti Íslands væri öruggt og fóru í gegnum mótið með aðeins eitt fall. Á heildina litið fínn dagur hjá Jónasi, sambærilegur við það besta sem hann hefur gert í vetur en Martin var aðeins undir sínu besta. Martin hafnaði í 39. sæti af 54 keppendum og Jónas í 42.
Þegar upp er staðið stóðu íslensku keppendurnir sig vel miðað við aðstæður. Umgjörð mótsins var stórbrotin og yfirþyrmandi og ljóst að það hafði áhrif á frammistöðuna. Það er þó eitthvað sem mun vega þungt í reynslubankanum til framtíðar.