Laugardagur, 30 Júní 2018 17:50

Úrslit á NM - Myndbönd af unglingum 

Norðurlandamót í áhaldafimleikum hófst í Danmörku í dag. Mótið fer fram í Farum Arena í Kaupmannahöfn og á Ísland alls fjögur lið á mótinu.

Keppni í fullorðinsflokki var að ljúka og átti Ísland þar keppendur í kvenna- og karlaflokki. Bæði lið enduðu í fjórða sæti, kvennaliðið með 145,600 stig, 0,2 stigum á eftir Finnlandi sem var í þriðja sæti og karlaliðið með 223,994 stig einungis 0,035 stigum á eftir Svíþjóð.

Lilja Ólafsdóttir var efst í kvennaflokki með 48,150 stig og hafnaði í sjöunda sæti í fjölþraut. Í karlaflokki var Valgarð Reinhardsson í sjötta sæti með 77,798 stig. 

Hægt er að nálgast úrslitin hér.

Unglingaflokkur hóf keppni í morgun þar sem keppt var bæði í fjölþraut og liðakeppni, í bæði stúlkna og drengjaflokki.

Íslensku liðunum gekk vel í liðakeppninni þar sem drengjaliðið hafnaði í fjórða sæti með 209,895 stig og stúlknaliðið með 130,650 stig í því fimmta. 

Martin Bjarni Guðmundsson gerði sér lítið fyrir í fjölþraut og nældi sér í þriðja sætið auk þess að vinna sér inn keppnisrétt á fjórum áhöldum á morgun, en þá verður keppt til úrslita á einstökum áhöldum. Vigdís Pálmadóttir skaraði fram úr í stúlknakeppninni, þar sem hún endaði með hæstu einkunn í stúlknaflokki á gólfi þar sem hún hlaut 12,650 stig. Vigdís var efst af íslensku keppendunum í fjölþraut þrátt fyrir föll á slá og tvíslá, en hún endaði í 13. sæti með lokaeinkunnina 45,150.

Hér má sjá æfingar allra þeirra sem að kepptu í unglingaflokknum í dag:

Drengir:

Ágúst Ingi Davíðsson

Breki Snorrason

Dagur Kári Ólafsson

Jónas Ingi Þórisson

Martin Bjarni Guðmundsson

Stúlkur:

Embla Guðmundsdóttir

Guðrún Edda Harðardóttir 

Laufey Birna Jóhannsdóttir

Sóley Guðmundsdóttir

Vigdís Pálmadóttir

Keppni á einstökum áhöldum hefst kl. 09:05 (kl. 11:05 á dönskum tíma) á morgun þar sem keppni í unglinga- og fullorðinsflokki fer fram á sama tíma.

Hægt verður að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu á netinu.

Áfram Ísland!
#fyririsland
#nordicartistic2018