Sunnudagur, 01 Júlí 2018 15:15

Norðurlandamóti lokið - Úrslit og myndbönd af æfingum keppenda

Norðurlandamóti í áhaldafimleikum lauk í dag með frábærum árangri íslensku keppendanna, sem unnu til 4 silfurverðlauna og 4 bronsverðlauna, ásamt því að verma 4 sætið 4 sinnum. 

Valgarð Reinhardsson er á góðri siglingu í undirbúningi fyrir Evrópumótið í ágúst, hann keppti á fimm áhöldum í úrslitum sem sýnir hversu góður fjölþrautarkeppandi hann er. Hann vann til silfurverðlauna á tvíslá í dag sem var síðasta áhaldið sem hann keppti á, eftir langa og stranga daga en Valgarð átti nóg inni og gerði glæsilega æfingu. Eyþór Örn Baldursson var magnaður á stökki, negldi lendingar og sótti brons. Það hefur verið magnað að fylgjast með vegferðinni sem Eyþór hefur verið á undanfarna mánuði, hann hefur barist í gegnum hindranir, meiðsli sem margir hefðu látið stoppa sig en hann hefur alltaf mætt sterkari til leiks, með hugarfar sem er aðdáunarvert, staðráðinn í að bæta sig sem fimleikamaður.

Konurnar okkar voru allar í úrslitum og gerði Agnes Suto-Tuuha sér lítið fyrir og varð önnur í sterkum úrslitum á stökki, en hún hefur verið að bæta sig mikið á áhaldinu undanfarið sem verður að teljast eftirtektarvert þar sem hún er elsta fimleikakona sem hefur keppt fyrir Ísland á alþjóðlegu móti, en hún verður 26 ára í október. 

Martin Bjarni fylgdi eftir góðu gengi í fjölþrautinni, þar sem hann keppti á fórum áhöldum í úrslitum og vann til 3 bronsverðlauna. Jónas Ingi átti frábæran dag á stökki og náði í silfurverðlaun en þeir stökkbræður unnu báðir til gullverðlauna á sterku alþjóðlegu móti í Berlín fyrr á árinu. Vigdís Pálmadóttir er enn einn magnaður stökkvari í íslenska liðinu en hún vann til silfurverðlauna á stökki í dag, hársbreidd frá gullinu. Þessi glæsilegi árangur gefur góð fyrirheit fyrir Evrópumótið sem fer fram í Glasgow eftir mánuð þar sem við komum til með að fylgjast með þessu magnaða unga fimleikafólki njóta þess að uppskera alls erfiðis æfinga undanfarnar vikur. 

Úrslit dagsins má finna hér.

Hér má sjá myndbönd af æfingum allra íslensku keppendanna í dag:

Úrslit á áhöldum – Karlar

Úrslit á áhöldum – Konur

Úrslit á áhöldum – Unglingar

Hér má sjá verðlaunahafana;

Vigdís Pálmadóttir, 2. sæti á stökki í unglingaflokki

Agnes Suto-Tuuha, 2. sæti á stökki

Martin Bjarni Guðmundsson, 3. sæti á gólfi í unglingaflokki

Jónas Ingi Þórisson, 2. sæti á stökki í unglingaflokki
Martin Bjarni Guðmundsson, 3. sæti á stökki í unglingaflokki

Eyþór Örn Baldursson, 3. sæti á stökki

Valgarð Reinhardsson, 2. sæti á tvíslá

Martin Bjarni Guðmundsson, 3. sæti á svifrá í unglingaflokki

Stoltir þjálfarar að loknu móti