Mánudagur, 30 Júlí 2018 16:40

Landslið Íslands á Evrópumót í áhaldafimleikum #EC2018

Kvenna- og stúlknalandslið Íslands lögðu af stað á Evrópumótið í áhaldafimleikum í morgun, en mótið er haldið í Glasgow í Skotlandi.

Mótinu er skipt niður í tvo hluta, þar sem kvennakeppnin fer fram dagana 2. - 5. ágúst og karlakeppnin dagana 9. - 12. ágúst. Mótið er hluti af meistaramóti Evrópu þar sem keppt er í 15 íþróttagreinum dagana 2. - 12. ágúst. 

Þetta mun vera í 32. skipti sem keppt er á Evrópumeistaramóti í áhaldafimleikum kvenna og 33. skipti sem keppt er í áhaldafimleikum karla. Alls munu um 311 fimleikamenn taka þátt á mótinu, frá 50 löndum.  

Ísland sendir alls 3 lið á mótið, kvennalið, stúlknalið og drengjalið, ásamt því að Valgarð Reinhardsson og Eyþór Örn Baldursson munu keppa í einstaklingskeppni á áhöldunum 6 í karlaflokki. Þjálfarar liðanna eru Guðmundur Þór Brynjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna, Róbert Kristmannson, landsliðsþjálfari karla og drengja og Þorbjörg Gísladóttir, landsliðsþjálfari stúlkna.

Dómarar í ferðinni eru Hlín Bjarnadóttir og Sandra Matthíasdóttir kvennamegin og Björn Magnús Tómasson og Sigurður Hrafn Pétursson karlamegin. Fararstjórar Íslands eru Sif Pálsdóttir og Helga Svana Ólafsdóttir.

Á morgun, þriðjudag hefjast æfingar í keppnishöllinni en það er loka undirbúningur liðana fyrir keppnina og mun kvennaliðið æfa á morgun og stúlknaliðið á miðvikudag. 

Keppni í kvennaflokki hefst fimmtudaginn 2. ágúst, kl. 13:15 á breskum tíma (kl. 12:15 á íslenskum tíma) og lýkur kl. 15:05 (kl. 14:05 á íslenskum tíma). Stúlknaliðið keppir föstudaginn 3. ágúst og hefst mótið kl. 18:30 á breskum tíma (kl. 17:30 á íslenskum tíma) og lýkur 20:45 (kl. 19:45).

Fimleikasambandið mun taka upp æfingar liðanna og setja þær inná heimasíðu og facebook síðu sambandsins að móti loknu. 

Mótsahaldarar hafa gefið út app þar sem má finna allar upplýsingar um mótið, í appinu má finna skipulag og úrslit mótsins, upplýsingar um þátttakendur, nýjustu fréttir, sögu mótsins, myndbönd af hápunktum mótsins, upplýsingar um keppnissvæði og miðasölu. Hægt er að nálgast appið hér og hægt er að ná í það bæði á google play og í app store fyrir þá sem eru með i-phone. Millumerki eða hashtag mótsins er #EC2018.

Heimasíðu mótsins má svo finna hér.

Úrslit í liðakeppni kvenna verða sýnd í beinni útsendingu á RÚV á laugardag og hefst útsending kl. 11:45 á íslenskum tíma. Á sunnudag verða sýnd úrslit á áhöldum í kvennaflokki og hefst útsending kl. 13:15. 

Úrslit í liðakeppni karla verða einnig sýnd í beinni á RÚV laugardaginn 11. ágúst og hefst útsending kl. 11:45 á íslenskum tíma. Sunnudaginn 12. ágúst hefst svo útsending kl. 13:15, þar sem sýnt verður frá úrslitum á áhöldum í karlaflokki. 


Áfram Ísland
#fimleikarfyriralla
#fyririsland