Fimmtudagur, 02 Ágúst 2018 15:45

Kvennaliðið hefur lokið keppni á EM

Kvennaliðið lauk keppni á Evrópumótinu í Glasgow í dag. Liðið hlaut alls 134,030 stig í liðakeppni en liðið skipuðu þær Agnes Suto-Tuuha, Margrét Lea Kristinsdóttir, Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir. Lilja Björk Ólafsdóttir gat því miður ekki tekið þátt vegna meiðsla. 

Stelpurnar voru glæsilegar en mótið er fyrsta stórmót Margrétar Leu og Thelmu í fullorðinsflokki. Alls þurfa þrír í liðinu að keppa á hverju áhaldi, en Thelma og Sigríður Hrönn kepptu á öllum fjórum áhöldum, Margrét Lea keppti á gólfi og jafnvægisslá og Agnes keppti á tvíslá og stökki.


Keppnin er hálfnuð og endaði íslenska liðið í 8. sæti í sínum hluta, en tveir hlutar eru eftir þar sem sterkustu liðin etja kappi.

Íslensku keppendurnir fengu gríðarlega reynslu úr mótinu, en Glasgow státar af einu af glæsilegustu umgjörðum sem sett hafa verið upp fyrir mót sem þetta.

Ísland átti tvo dómara á mótinu, en það eru þær Hlín Bjarnadóttir og Sandra Matt Árnadóttir. Þjálfarar íslenska kvennaliðsins eru þau Guðmundur Brynjólfsson og Hildur Ketilsdóttir.

Úrslit í liðakeppni kvenna verða sýnd í beinni útsendingu á RÚV á laugardag og hefst útsending kl. 11:45 á íslenskum tíma. Á sunnudag verða sýnd úrslit á áhöldum í kvennaflokki og hefst útsending kl. 13:15. 

Mótsahaldarar hafa gefið út app þar sem má finna allar upplýsingar um mótið, í appinu má finna skipulag og úrslit mótsins, upplýsingar um þátttakendur, nýjustu fréttir, sögu mótsins, myndbönd af hápunktum mótsins, upplýsingar um keppnissvæði og miðasölu. Hægt er að nálgast appið hér og hægt er að ná í það bæði á google play og í app store fyrir þá sem eru með i-phone. Millumerki eða hashtag mótsins er #EC2018.

Myndir af mótinu má finna á facebook síðu fimleikasambandsins: Fimleikasamband Íslands

Áfram Ísland
#EC2018
#fimleikarfyriralla
#fyririsland