Þriðjudagur, 07 Ágúst 2018 20:56

Karlaliðið stóð sig vel á keyrsluæfingunni á EM í dag – Myndband

Seinni hluti Evrópumótsins í áhaldafimleikum fer fram í Glasgow dagana 9. – 12. ágúst. Karlalandslið Íslands í áhaldafimleikum fór á podium æfingu í keppnishöllinni í Glasgow í dag, en bæði karla- og drengjalandsliðið mættu til Glasgow í gær.

Hér má sjá myndband af æfingum karlalandsliðsins í dag

Mótið er haldið í 33. skipti og alls taka 309 keppendur þátt í mótinu. Þar af eru 36 þjóðir í fullorðinsflokki og 37 í unglingaflokki mættar til keppni. Margir af bestu fimleikamönnum heims keppa á mótinu og má þar meðal annars nefna Epke Zonderland sem er meðal annars kallaður "the flying Dutchman", en hann varð Ólympíumeistar á svifrá árið 2012. 

Keppt verður í karlaflokki á fimmtudaginn næstkomandi þar sem Valgarð Reinhardsson og Eyþór Örn Baldursson keppa fyrir Íslands hönd. Strákarnir hefja keppni í hringjum kl. 13:00 (kl. 14:00 á breskum tíma) og lýkur keppninni kl. 15:15 (kl. 16:15 á breskum tíma). Til að skipa lið þarf amk. 3 liðsmenn og er stefna strákanna því að komast í úrslit á einstökum áhöldum. Alls komast 8 keppendur í úrslit á hverju áhaldi. Þess má geta að Ísland er í sama hóp og Holland á mótinu og mun Eyþór Örn Baldursson því stíga upp á áhald beint á eftir Zonderland "the flying Dutchman". 

Drengjalandsliðið keppir í liðakeppni á föstudag, en liðið skipa þeir Ágúst Ingi Davíðsson, Breki Snorrason, Dagur Kári Ólafsson, Jónas Ingi Þórisson og Martin Bjarni Guðmundsson.

 

Úrslit í liðakeppni fullorðinna verða sýnd í beinni útsendingu á RÚV á laugardag og hefst útsending kl. 11:55. Einungis 8 efstu liðin munu keppa til úrslita. Úrslit á einstökum áhöldum fullorðinna verða einnig sýnd á RÚV, en keppnin fer fram á sunnudag og hefst bein útsending kl. 13:25. 

Landsliðsþjálfarar eru bræðurnir og fyrrum Íslandsmeistararnir Róbert Kristmannsson og Viktor Kristmannsson.

Ísland á tvo dómara á mótinu, þá Björn Magnús Tómasson og Sigurð Hrafn Pétusson.

Mótsahaldarar hafa gefið út app þar sem má finna allar upplýsingar um mótið, í appinu má finna skipulag og úrslit mótsins, upplýsingar um þátttakendur, nýjustu fréttir, sögu mótsins, myndbönd af hápunktum mótsins, upplýsingar um keppnissvæði og miðasölu. Hægt er að nálgast appið hér og hægt er að ná í það bæði á google play og í app store fyrir þá sem eru með i-phone. Millumerki eða hashtag mótsins er #EC2018.

Myndir af mótinu má finna á facebook síðu fimleikasambandsins: Fimleikasamband Íslands

Áfram Ísland
#EC2018
#fimleikarfyriralla
#fyririsland