Fimmtudagur, 09 Ágúst 2018 16:45

Möguleiki á úrslitum á stökki hjá Valla - Myndband

Valgarð Reinhardsson og Eyþór Örn Baldursson luku keppni á Evrópumótinu í Glasgow rétt í þessu. Tveir hlutar af þremur eru búnir af mótinu og er Valgarð í 2. sæti á stökki eftir annan hlutan, þrátt fyrir að hafa vaknað veikur í morgun. Hann fékk einkunnina 14,233 fyrir stökkin sín, en keppa þarf með tvö mismunandi stökk til þess að hafa möguleika á að komast í úrslit. Alls komast 8 keppendur í úrslit á hverju áhaldi en 10 keppendur sem munu keppa með tvö stökk í síðasta hluta mótsins og hafa því möguleika á að fá hærri einkunn en Valgarð. Síðasti hluti mótsins samanstendur af sterkustu liðum álfunnar en alls eru 12 lið í þeim hluta. 

Einungis einn Íslendingur, Rúnar Alexandersson hefur komist í úrslit á Evrópumóti en hann komst í úrslit á bogahesti og tvíslá. Spennan fyrir síðasta hlutann er því gríðarlega mikil. Valgarð keppti á 5 áhöldum af 6 í dag, en til að spara orku keppti hann ekki á svifrá. Eyþór Örn Baldursson var að keppa á sínu öðru Evrópumóti í dag en hann stóð sig mjög vel og skilaði góðum æfingum á öllum 6 áhöldum.

Hér má sjá myndbönd af æfingum strákana og einkunnir á hverju áhaldi.

Valgarð Reinhardsson
Eyþór Örn Baldursson

Úrslit í liðakeppni fullorðinna verða sýnd í beinni útsendingu á RÚV á laugardag og hefst útsending kl. 11:55. Einungis 8 efstu liðin munu keppa til úrslita. Úrslit á einstökum áhöldum fullorðinna verða einnig sýnd á RÚV, en keppnin fer fram á sunnudag og hefst bein útsending kl. 13:25. 

Landsliðsþjálfarar eru bræðurnir og fyrrum Íslandsmeistararnir Róbert Kristmannsson og Viktor Kristmannsson.

Mótsahaldarar hafa gefið út app þar sem má finna allar upplýsingar um mótið, í appinu má finna skipulag og úrslit mótsins, upplýsingar um þátttakendur, nýjustu fréttir, sögu mótsins, myndbönd af hápunktum mótsins, upplýsingar um keppnissvæði og miðasölu. Hægt er að nálgast appið hér og hægt er að ná í það bæði á google play og í app store fyrir þá sem eru með i-phone. Millumerki eða hashtag mótsins er #EC2018.

Myndir af mótinu má finna á facebook síðu fimleikasambandsins: Fimleikasamband Íslands.

Áfram Ísland
#EC2018
#fimleikarfyriralla
#fyririsland