Þriðjudagur, 28 Ágúst 2018 10:49

Fræðsludagur túlkaður á ensku

Laugardaginn 25. ágúst fór fram Fræðsludagur Fimleikasambandsins í Fagralundi í Kópavogi. Dagurinn var vel sóttur af þjálfurum, en alls mættu um 120 þjálfarar og starfsfólk innan fimleikahreyfingarinnar.

Dagskráin var glæsileg og málefnin ekki síður mikilvæg. Alls voru fengnir þrír fyrirlesarar til að koma og ræða um mismunandi málefni sem snerta Fimleikahreyfinguna, en fyrirlesarar voru þau Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við mennta-vísindasvið Háskóla Íslands, sem fjallaði um einelti. 

Hrund Þrándardóttir, sálfræðingur frá Sálstofunni fjallaði um vinnu með börnum með ADHD og kvíða.

Og síðast en ekki síst kom til okkar Jeffrey Thomson frá Kanada sem fjallaði um fimleika fyrir alla og fimleika sem leiðandi íþrótt. Jeff er meðal annars í tækninefnd karla hjá alþjóða fimleikasambandinu. 

Fimleikar eru þriðja stærsta íþróttagreinin í landinu og því mikill fjöldi iðkenda sem þarf að þjónusta. Fimleikahreyfingin er rík af hæfileikaríkum þjálfurum og eru margir þeirra af erlendu bergi brotnir. Okkur er mikið í mun að ná jafnt til allra okkar þjálfara og fræða þá til að geta þjónustað iðkendur enn betur. Líkt og í fyrra voru fyrirlestrarnir túlkaðir fyrir erlenda þjálfara og í þetta skiptið voru þeir túlkaðir á ensku. 

Við viljum þakka öllum fyrirlesurum kærlega fyrir að gefa sér tíma fyrir okkur og þökkum einnig Hlín Bjarnadóttur fyrir fundarstjórn.

Við vonum að sem flestir hafi haft eitthvað gang af deginum og séu upplýstari um málefnin.

Gangi ykkur öllum vel í ykkar störfum í vetur.

Áfram íslenskir fimleikar!
#fimleikarfyriralla
#fyririsland