Mánudagur, 05 Nóvember 2018 14:44

HM lokið - Alþjóðlegir dómarar sem stóðu vaktina á mótinu

Sögulegu heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum í Doha er lokið.

Þeir dómarar sem stóðu vaktina á HM í áhaldafimleikum í Doha unnu langa daga við undirbúning áður en að keppni hófst. Þau Hlín Bjarnadóttir, Anton Heiðar Þórólfsson og Björn Magnús Tómasson stóðu vaktina á mótinu en Björn var valinn af alþjóðasambandinu (FIG) sem eftirlitsdómari, sem er gríðarlegur heiður en þetta er í annað skiptið á þessu ári sem hann er valin sérstaklega í ábyrgðarstöðu í sínum verkefnum þar sem hann var valinn sem yfirdómari á EM í ágúst. Við erum ákaflega stolt af Birni og hans verkum á dómaravaktinni.

Dómararnir nýttu síðustu tvo daga fyrir mót við undirbúning, þegar þeir dæmdu í 14 klst hvorn daginn fyrir sig og fylgdust með gangi mála hjá keppendum mótsins við undirbúning fyrir undanúrslitin þar sem um 250 keppendur af hvoru kyni freistuðu þess að komast í úrslit; liðaúrslit, fjölþrautarúrslit og úrslit á einsökum áhöldum. 

Björn Magús Tómasson, Hlín Bjarnadóttir og Anton Heiðar Þórólfsson í keppnishöllinni í Doha

Heimsmeistaramótið í ár markaði upphaf undankeppna á Ólympíuleikana í Tokyo 2020, bæði hvað varðar lið og þá dómara sem eiga möguleika á að verða valdir til leiks eftir tvö ár þegar öllu verður tjaldað til í Tokyo. Björn og Anton hafa báðir verið valdir áður til að dæma Ólympíuleika. Til þess að vera valinn sem dómari á leikana þurfa þeir dómarar sem eru hæst rankaðir af alþjóða sambandinu að dæma alla flokka sem keppt er í á heimsmeistaramótum og þeim heimsbikarmótum sem varða leiðina á leikana. Í ár voru okkar dómarar að störfum allt mótið og voru dregnir í þá hluta sem mestu skiptir þegar litið er til aukinna möguleika á vali á sæti í Tokyo.

Við óskum þeim Birni, Antoni og Hlín innilega til hamingju með mótið og við erum stolt af því að tefla fram fagfólki eins og ykkur, í keppni meðal þeirra bestu í heimi.

Ísland sendi kvennalið til keppni sem samanstóð af Agnesi Suto-Tuuha, Dominiqua Alma Belányi, Margréti Leu Kristinsdóttur, Sonju Margréti Ólafsdóttur og Thelmu Aðalsteinsdóttur. Þar stóð uppúr sláaræfing Sonju Margrétar en hún ásamt Simone Biles gerðu nýjar æfingar á mótinu sem nefndar verða eftir þeim í dómarabókinni. Sonja er fyrsti íslendingurinn til að fá nafn sitt, Ólafsdóttir, skráð í bókina. Þjálfarar voru þær Hildur Ketildsdóttir og Þorbjörg Gísladóttir.

Hér má sjá myndbönd af æfingum kvennalandsliðsins frá mótinu:
Agnes Suto-Tuuha
Dominiqua Alma Belányitir
Margrét Lea Kristinsdóttir
Sonja Margrét Ólafsdóttir
Thelma Aðalsteinsdóttir

Í karlaflokki kepptu þeir Valgarð Reinhardsson, Eyþór Örn Baldursson og Jón Sigurður Gunnarsson. Mótið var mikilvægur undirbúningur fyrir Heimsbikarmót sem fram fer í Þýskalandi eftir þrjár vikur, en það mót er fyrsta úrtökumót af 5 í Heimsbikarmótaröð sem nú er ný leið fyrir keppendur að ná inn á Ólympíuleika. Þjálfari var Róbert Kristmannsson.

Hér má sjá myndbönd af æfingum karlalandsliðsins frá mótinu: 

Valgarð Reinhardsson
Eyþór Örn Baldursson
Jón Sigurður Gunnarsson

Við erum lánsöm með okkar fólk í ferð sem þessari, Ísland teflir fram fagfólki á öllum sviðum, íslenskum fimleikum til heilla. Takk fyrir allt!!

Áfram Ísland
#íslenskirfimleikar
#gogymtastic
#fyririsland