Fimmtudagur, 22 Nóvember 2018 13:53

Undanúrslit á Cottbus að hefjast - Myndband

Undanúrslit á Heimsbikarmótinu í Cottbus í Þýskalandi hefjast í dag. Mótið er fyrsta mótið af fimm í aðdraganda Ólympíuleikanna í Tokyo 2020, þar sem hægt er að tryggja sér sæti á Ólympíuleikana á einstöku áhaldi. Hvert mót gefur stig sem telja að lokum samanlagt og skera úr um hverjir tryggja sér sæti. 

Íslensku keppendurnir fóru á æfingu í keppnishöllinni í gær og skemmtu sér konunglega, en á mótið eru margar af stærstu stjörnum í fimleikaheiminum mættar til að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum.

 

Hér má sjá myndband af æfingunni. 

Í dag er keppt í fyrri hluta undanúrslita þar sem keppt verður á stökki og tvíslá í kvennaflokki og í karlaflokki á gólfi, bogahesti og á hringjum. Í kvennaflokki keppir Agnes Suto-Tuuha fyrir Íslands hönd á stökki og þær Thelma Aðalsteinsdóttir og Dominiqua Alma Belányi á tvíslá. Í karlaflokki keppir Jón Sigurður Gunnarsson á hringjum. Keppnin hefst kl. 15:40 á íslenskum tíma og lýkur kl. 19:00. 

Seinni hluti undanúrslita fer fram á morgun, þar sem Thelma Aðalsteinsdóttir mun keppa á slá og Agnes Suto-Tuuha á slá og á gólfi. Íslandsmeistarinn Valgarð Reinhardsson, sem var fyrr á þessu ári fyrstur Íslendinga til að komast í úrslit á stökki á Evrópumóti ætlar að einbeita sér að stökki á þessu móti, en það er eina áhaldið sem hann keppir á.

Í aðdraganda Ólympíuleikana verða einnig þrjú fjölþrautarmót þar sem hægt er að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í fjölþraut. 

Undanúrslit verða ekki sýnd í beinni útsendingu en Fimleikasambandið mun taka æfingar íslensku keppendanna upp og setja á heimasíðu og facebook síðu sambandsins að móti loknu. Þar að auki verða settar inn myndir af mótinu inn á facebook síðu sambandsins.

Facebook síðu mótsins má finna hér.

Fylgist með okkur á instagram, við munum setja bæði þar inn bæði myndbönd og myndir af mótinu, sem og í story á hverjum degi.

Þið finnið okkur undir þessu nafni: 

Úrslit fara fram á laugardag og sunnudag, en átta efstu úr undanúrslitum komast í úrslit á hverju áhaldi. 

Áfram Ísland
#fyririsland
#fimleikarfyriralla
#islenskirfimleikar