Print this page
Fimmtudagur, 21 Febrúar 2019 04:00

Valgarð hefur keppni á Heimsbikarmótinu í Melbourne í dag

Valgarð Reinhardsson hefur keppni á Heimsbikarmótinu í Melbourne í Ástralínu í dag, en undanúrslit fara fram í dag og á morgun.

Mótið er eitt af úrtökumótunum fyrir Ólympíuleikana og eru því bestu fimleikamenn heims mættir til að taka þátt í þeirri von um að tryggja sér sæti á leikana.

Valgarð mun alls keppa á fjórum áhöldum og mun hefja keppni á gólfi í dag. Helstu möguleikar Valgarðs eru taldir vera á stökki, en hann varð í fimmta sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu fyr á árinu og varð þá fyrsti Íslendingur í sögunni til að tryggja sér rétt í úrslitum á stökki á Evrópumóti.

Ekki er samkeppnin af verri endanum, en meðal keppenda er Dominick Cunningham frá Bretlandi, núverandi Evrópumeistari á gólfi. Ásamt honum er ungstyrnið, Carlos Yulo, frá Filippseyjum sem hefur komið fimleikaheiminum á óvart á síðasta ári, en hann keppti í fyrsta skipti í fullorðinsflokki á Heimsmeistaramótinu í Quatar þar sem hann endaði í þriðja sæti á gólfi. Einnig er þungavigtamaðurinn Alexander Shatilov meðal keppenda en hann hefur tvisvar sinnum unnið brons á gólfi á Heimsmeistaramóti, árið 2009 og 2011, ásamt því að hafa unnið til fjölda verðlauna í gólfæfingum á Evrópumótum.

Seinni hluti undanúrslita fer svo fram á morgun, þar sem Valgarð mun keppa á stökki, tvíslá og svifrá. 

Einungis komast átta í úrslit á hverju áhaldi og fara úrslit fram á föstudag og laugardag.

Mótið hefst kl. 18 á staðartíma sem er kl. 07:00 um morgun á íslenskum tíma. Valgarð keppir í annari umferð og hefur því keppni um kl. 07:30. Á heimasíðu mótsins er hægt að fylgjast með úrslitum, ásamt því að sjá hvaða keppendur eru mættir til leiks.

Við óskum Valgarði góðs gengis og setjum inn myndbönd af æfingum hans að móti loknu.

Áfram Ísland
#fyririsland
#fimleikarfyriralla