Laugardagur, 16 Mars 2019 17:43

Agnes Suto-Tuuha og Valgarð Reinhardsson Íslandsmeistarar 2019

Valgarð Reinhardsson núverandi Íslandsmeistari úr Gerplu tók fjölþrautartitilinn þriðja árið  í röð í dag á Íslandsmeistaramótinu í áhaldafimleikum sem fram fór í fimleikahúsi Ármanns. 

Hann fékk 76.598 stig fyrir æfingar sínar og sigraði þar með næsta mann með 2,166 stigum. Þetta er í fjórða skipti sem Valgarð vinnur titilinn en hann hefur unnið árið 2015, 2017, 2018 og 2019. Í öðru sæti var Íslandsmeistari unglinga frá því í fyrra, Martin Bjarni Guðmundsson sem var að keppa í fyrsta skipti í fullorðinsflokki með 74.432 stig. Í þriðja sæti  með 72.599 stig var Eyþór Örn Baldursson. Valgarð er afburðar íþróttamaður og fékk hæstu einkunn á hringum, stökki og á svifrá í dag en alls voru 10 keppendur í fullorðinsflokki karla.

Í kvennaflokki sigraði Agnes Suto-Tuuha úr Gerplu og er þetta hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill í fjölþraut en hún var elsti keppandinn á mótinu í ár, 27 ára. Keppnin var gríðarlega spennandi í kvennaflokki en einungis munaði 0.1 stigum á milli Agnes og Thelmu Aðalsteisdóttur fyrir síðasta áhald. Agnes sigraði með 47.750 stig og Thelma varð í öðru með 47.450 stig, en þess má geta að þær deildu þriðja sætinu á Íslandsmeistaramótinu í fyrra. Þriðja sætið tók svo Emilía Björt Sigurjónsdóttir úr Björk, en hún hlaut 45.050 stig.

Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Irina Sazonova, var í öðru hlutverki á mótinu í ár, en þar sem hún er nýbökuð móðir og hefur ekki hafið keppni á ný, sat hún í dómarasæti.

Jónas Ingi Þórisson sigraði örugglega í unglingaflokki karla með 71.498 stig, heilum 7.101 stigum á undan Ágúst Inga Davíðssyni úr Gerplu sem lauk móti með 64.397 stig. Í þriðja sæti var Valdimar Matthíasson úr Gerplu með 61.332 stig.

Laufey Birna Jóhannsdóttir úr Gróttu varð í fyrsta sæti í unglingaflokki kvenna með 46.500, í öðru sæti varð Hildur Maja Guðmundsdóttir úr Gerplu með 45.400 stig og í því þriðja Guðrún Edda Min Harðardóttir úr Björk með 43.950 stig.

Sjá má öll úrslit hér. 

Á morgun fara fram úrslit á einstökum áhöldum, þar sem 5 hæstu keppendur á hverju áhaldi berjast um Íslandsmeistaratitilinn á áhaldinu. Keppnin hefst kl. 15:00 í fimleikahúsi Ármanns, Laugarbóli og verður mótið sýnt í beinni útsendingu á RÚV.

Við óskum öllum keppendum til hamingju með daginn í dag og óskum þeim um leið góðs gengis í keppni á morgun.

Áfram Ísland!

#fyririsland
#fimleikarfyriralla
#islenskirfimleikar