Mánudagur, 18 Mars 2019 08:45

Landsliðsverkefni fyrir Evrópumót í hópfimleikum árið 2020

Yfirþjálfarar og afreksstjóri hafa unnið að nýju fyrirkomulagi fyrir Evrópumótið í hópfimleikum sem fram fer í Kaupmannahöfn árið 2020. Helsta markmið sambandsins hefur verið að halda samfellu í landsliðs starfi milli stórverkefna og munu úrvalshópar verða starfsræktir árið 2019, í undirbúningi fyrir Evrópumótið árið 2020. Til að stýra þessari vinnu eru skipaðir 6 landsliðsþjálfarar árið 2019. Þjálfarateymin verða svo fullmönnuð árið 2020 fyrir lokaundirbúning fyrir Evrópumót.

Skipað verður í þrjá úrvalshópa sem munu æfa saman þar til lið eru skipuð í lok vorannar 2020; 
- Allar konur
- Allar stúlkur
- Allir karlar/drengir

Fyrirkomulag

Stefnt verður að því að hafa eina stökkæfingu og eina dansæfingu í mánuði fyrir hvert lið og mun dagskrá vera sett inn á heimasíðu sambandsins og send út á félög að lokinni fyrstu úrvalshópaæfingu. Auk þess verða þrjár til fjórar opnar æfingar yfir árið, þar sem öllum þeim sem ekki eru í úrvalshóp er boðið að koma. Að loknum opnum æfingum verða úrvalshópar endurmetnir. Allir í úrvalshópum fara í þrekpróf tvisvar til þrisvar sinnum yfir árið, sem tekið verður af Viktoiju Riskute, mastersnema í Íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík og verða upplýsingar nýttar til að bæta getu iðkenda. Það er hluti af samstarfsverkefni á milli HR og Fimleikasambandsins, en niðurstöður prófsins verða sendar á félagsþjáflara, samþykki foreldrar það og nýttar til að styrkja líkamlega getu iðkanda. Haldnar verða vinnustofur á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, þar sem landsliðsþjálfarar kynna stefnu landsliða og halda bæði verklega og bóklega vinnustofu fyrir félagsþjálfara. Markmiðið með því er að kynna stefnur úrvalshópa og að fara yfir grunnæfingar fyrir móment sem stefnt er á að keppa með á EM 2020. 

Skráning

Fyrstu æfingar verða haldnar í þessari og næstu viku. Hér má sjá allar upplýsingar um æfingarnar. Skráningarform hefur verið sent út á félögin en einnig má nálgast það hér: https://goo.gl/forms/RU41JDd39CH2smFY2

Lágmarkskröfur hafa einnig verið sendar á félögin, fyrir opna æfingu hjá unglingsstúlkum.

Fyrstu æfingar 

  • Miðvikudagurinn 20. mars 2019, kl. 19:00-22:00 í Íþróttafélaginu Gerplu - Vatnsenda = Konur - Unglingar - Fæddar 2007-2003 - Opin æfing fyrir allar unglingsstúlkur.
  • Fimmtudagurinn 21. mars 2019, kl. 19:00-22:00 í Íþróttafélaginu Gerplu - Vatnsenda = Konur - Fullorðnir - Fæddar 2002 og eldri - Allir sem voru í 16 manna landsliði í fyrra í kvennaflokki, stúlknaflokki, blönduðu liði fullorðinna og blönduðu liði unglinga (valdir í hóp í maí). 
  • Laugardagurinn 23. mars 2019, kl. 15:00-18:00 í Stjörnunni = Karlar - Unglingar og fullorðnir - Fæddir 2007 og eldri - Þeir sem æfa í KKe og eldri.
  • Mánudagurinn 25. mars 2019, kl. 19:00-22:00 í Fjölni = Konur - Fullorðnir - Fæddar 2002 og eldri - Opin æfing fyrir allar konur sem voru ekki í landsliðum í fyrra.

Við hvetjum alla til að mæta á æfingarnar, einungis eru settar kröfur fyrir unglingsstúlkur vegna fjölda en næstu opnu æfingar verða ekki með kröfum. Á öðrum æfingum verða ekki kröfur og því stefnan að sem flestir mæti, taki þátt og hafi gaman saman. 

Við viljum biðja iðkendur að mæta amk 30 mínútum fyrr á æfinguna, þar sem iðkendur fá númer við komu. Einnig biðjum við iðkendur að mæta ekki í fötum merktu sínu félagi, heldur í fötum merktum Íslandi eða ómerktum fötum. 

Þeir sem ekki komast á æfinguna er boðið að senda myndbönd. Þá biðjum við viðkomandi að hafa samband við afreksstjóra á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og fá upplýsingar um æfingar sem þjálfarar vilja sjá. Afreksstjóri kemur svo myndböndum til þjálfara. Einnig bendum við á að aðrar æfingar verða í boði á þessari önn fyrir þá sem ekki komast.

Eftirfarandi þjálfarar hafa verið ráðnir í fyrstu 6 landsliðsþjálfarastöðurnar og munu þeir hefja stefnumótun fyrir næsta tímabil;

Stökkþjálfarar

Kvennalið: Bjarni Gíslason

Blandað lið fullorðinna: Kristinn Þór Guðlaugsson

Stúlknalið: Þorgeir Ívarsson

Blandað lið unglinga: Henrik Pilgaard

Dansþjálfarar

Konur og stúlkur: Ásta Þyrí Emilsdóttir

Blandað lið fullorðinna og blandað lið unglinga: Katrín Pétursdóttir

Yfirþjálfarar verkefnisins

Björn Björnsson

Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir

Við hlökkum til að hefja nýja vegferð að mótinu 2020 og óskum öllum þjálfurum góðs gengis í vinnu sinni.

Áfram Ísland
#fyririsland
#fimleikarfyriralla
#islenskirfimleikar