Miðvikudagur, 10 Apríl 2019 10:15

Evrópumótið hafið - Bein útsending á netinu

Evrópumótið í áhaldafimleikum hófst í morgun með keppni í karlaflokki. Mótið fer fram í Szczecin í Póllandi og fara undanúrslit fram í dag og á morgun. Eyþór Örn Baldursson og Valgarð Reinhardsson keppa fyrir hönd Íslands í karlaflokki, en þess má geta að Valgarð komst í úrslit á stökki á Evrópumótinu í Glasgow í fyrra og varð þar með fyrsti Íslendingurinn til þess að komast í úrslit á stökki á Evrópumóti. Hér má sjá stökkið hans Valgarðs frá Evrópumótinu 2018. 

Mótið verður sýnt í beinni útsendingu á netinu og má finna slóðina hér. 

Hægt er að fylgjast með einkunnum hér. 

Strákarnir fóru á æfingu í keppnishöllinni á mánudag og má sjá myndbrot af æfingunni hér. 

Í kvennaflokki keppa núverandi Íslandsmeistari, Agnes Suto-Tuuha, ásamt Emilíu Björt Sigurjónsdóttur, Thelmu Aðalsteinsdóttur og Vigdísi Pálmadóttur. Emilía og Vigdís eru að keppa á sínu fyrsta Evrópumóti í fullorðinsflokki og því reynslan af mótinu dýrmæt fyrir komandi ár. Keppni í kvennaflokki fer fram á morgun og eru Emilía og Vigdís í hóp tvö, en Agnes og Thelma eru í hóp fjögur. 

Úrslit í fjölþraut fara svo fram á föstudag og laugardag, þar sem 24 stigahæstu fimleikamenn úr undankeppninni munu berjast um titilinn.

Á sunnudag munu 8 stigahæstu úr undankeppninni á hverju áhaldi, keppa til úrslita á einstökum áhöldum.