Miðvikudagur, 25 Apríl 2012 15:41

Brons á Norðurlandamóti unglinga í Hópfimleikum

Laugardaginn 21. apríl fór fram Norðurlandamót unglinga í hópfimleikum í Halmstad í Svíþjóð. Þrjú íslensk lið tóku þátt, frá Gerplu og Stjörnunni, tvö kvennalið og eitt blandað lið. Mótið hófst á keppni í flokki blandaðra liða þar sem sex lið tóku þátt.  Blandaða liðið frá Gerplu stóð sem mjög vel og hlaut á endanum þriðja sætið en það vakti athygli að liðið fékk hæstu einkunn allra liða í gólfæfingum, 16,50.  Þetta var þeirra fyrsta Norðurlandamót og má því með sanni segja að árangur þeirra sé glæsilegur og getum við vænst mikils af þeim í framtíðinni.

Kvennaliðin okkar náðu einnig góðum árangri, Stjarnan varð í 5.sæti og Gerpla í 6.sæti, en 10 lið tóku þátt í kvennaflokki. Þess má geta að Gerpluliðið fékk hæstu einkunn sem gefin var í gólfæfingum, 18,40.  Að auki framkvæmdi ein stúlkan úr liðinu erfiðasta stökk sem framkvæmt var í kvennakeppninni, tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og tveimur og hálfri skrúfu.

Hér fyrir neðan má sjá mynd af íslenska keppnishópnum, en neðar á síðunni má finna tengla þar sem úrslit í hverjum flokki fyrir sig eru sýnd.