Föstudagur, 08 Febrúar 2013 16:40

Búið að ráða landsliðsþjálfara

Frá vinstri: Ása, Gennadiy, Guðmundur og Sandra Frá vinstri: Ása, Gennadiy, Guðmundur og Sandra

Gengið hefur verið frá ráðningu landsliðsþjálfara karla, kvenna og í hópfimleikum fyrir árið en sambandið ræður nú landsliðsþjálfara í fyrsta skipti í sögu sambandsins. Mörg verkefni liggja fyrir á árinu og því ljóst að um metnaðarfullt verkefni er að ræða sem miklar vonir eru bundnar við hjá hreyfingunni. Fimleikasambandinu er ánægja að tilkynna ráðningu þessara þjálfara og bíður þá velkomna til starfa.


Landsliðsþjálfarar í áhaldafimleikum kvenna.
Guðmundur Þór Brynjólfsson og Sandra Dögg Árnadóttir.


Guðmundur og Sandra eru meðal reyndustu þjálfara og dómara hreyfingarinnar en þau hafa starfað fyrir Fimleikasambandið í fjölda ára, bæði í tækninefndum og fræðslunefnd. Undanfarin ár hafa þau komið mikið að landsliðsmálum, þróun afreksstefnunnar og mótun að framtíðarsýn sambandsins. Guðmudur og Sandra hafa tekið þátt í millilandamótum, landskeppnum, Norðurlandamótum, Norður-Evrópumótum, Evrópumótum og Heimsmeistaramótum. Auk þess hefur Guðmundur einn íslenskra þjálfara farið með keppanda á Ólympíuleika. Undir þeirra stjórn hafa keppendur í landsliðum Íslands unnið til verðlauna, bæði á Norðurlanda og Norður – Evrópumótum. Þau eru einnig bæði sjúkraþjálfarar að mennt og miklir fagmenn í sínum störfum bæði innan salar sem utan.


Landsliðsþjálfari í áhaldafimleikum karla.
Gennadiy Zadorochnyy.


Gennadiy hefur starfað við fimleikaþjálfun á Íslandi frá árinu 2008. Síðan að hann hóf störf hefur hann annast afreksþjálfun á karlafimleikum og oftar en ekki átt stóran hluta þeirra einstaklinga sem myndað hafa landsliðið. Gennadiy er með próf úr íþróttaháskóla í Úkraínu í þjálffræðum með fimleika sem aðal fag. Hann var aðalþjálfari landsliða í Hollandi og Belgíu, og ráðleggjandi þjálfari fyrir landsliðin í Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Ásamt því að hafa unnið með unglingalandsliðið í Úkraínu í fjögur ár og verið ráðgefandi fyrir A landslið Úkraínumanna.

Landsliðsþjálfari í hópfimleikum.
Ása Inga Þorsteinsdóttir.


Ása Inga er einn reyndasti og sigursælasti þjálfari landsins en hún hefur um árabil annast þjálfun á meistaraflokksliði Gerplu og með þeim unnið alla þá titla sem í boði eru fyrir félagslið í Evrópu. Ása Inga er grunnskólakennari að mennt og hefur undanfarin ár verið ein fárra íslenskra þjálfara sem hafa haft þjálfun að sínu aðalstarfi. Hún hefur unnið til tveggja gullverðlauna á Evrópumóti og með því sýnt að hún er einn allra hæfasti þjálfari sem Evrópa hefur á að skipa í hópfimleikum í dag.

Myndasafn

{gallery}176{/gallery}