Fimmtudagur, 07 Mars 2013 15:20

Íslandsmeistaramót í áhaldafimleikum

Um helgina 9-10.mars mun Íslandsmeistaramót í áhaldafimleikum fara fram í Versölum, húsnæði fimleikafélagsins Gerplu í Kópavogi.  Allt okkar besta fimleikafólk hefur skráð sig til keppni og ljóst að hörð barátta verður um meistaratitlana.  Allir Íslandsmeistararnir frá því í fyrra mæta til að verja titla sína, þau Róbert Kristmannsson í karlaflokki, Thelma Rut Hermannsdóttir í kvennaflokki og Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir í stúlknaflokki, en meistarinn í piltaflokki Sigurður Andrés Sigurðsson keppir nú í karlaflokki í ár og því ljóst að nýr Íslandsmeistari pilta verður krýndur.  Auk meistarana frá því í fyrra, keppa Ólafur Garðar Gunnarsson og Tinna Óðinsdóttir, sem bæði hlutu silfurverðlaun á Norður-Evrópumeistaramótinu í Glasgow í nóvember 2012.  

Keppnisfyrirkomulag er með hætti að á laugardeginum, 9.mars, fer fram keppni í fjölþraut og hefst hún kl.14:40 og mun ljúka kl. 17:30 með verðlaunaafhendingu og krýningu Íslandsmeistara í áhaldafimleikum.  Á sunnudeginum, 10.mars, fara svo fram úrslit á einstökum áhöldum þar sem 5 stigahæstu einstaklingarnir frá laugardeginum keppa, keppnin hefst kl.14:40 og lýkur með verðlaunaafhendingu kl. 17:30.