Mánudagur, 11 Mars 2013 16:04

Hrafnhildur Hanna íþróttamaður HSK 2012

Fimleikakonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Umf. Selfoss, var útnefnd íþróttamaður HSK 2012 á héraðsþingi Skarphéðins í Aratungu um helgina.  Alls var 21 íþróttamaður tilnefndur í kjörinu en sérstök valnefnd kýs íþróttamann ársins.  

Hrafnhildur Hanna náði frábærum árangri árið 2012 en hún varð Evrópumeistari í hópfimleikum með unglingalandsliði Íslands í október. Hún er lykilmanneskja í liðinu og stökk m.a. fjórar umferðir af sex á mótinu, en aðeins sex liðsmenn af fjórtán komast í hverja umferð á áhöldum.  Auk þess að æfa fimleika spilar Hrafnhildur stórt hlutverk með liði Selfoss í N1-deild kvenna í handbolta.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Hrafnhildi Hönnu með viðurkenningu sína.  Ljósmynd Sunnlenska.is/Guðmundur Karl.