Print this page
Mánudagur, 25 Mars 2013 11:01

Stórsamningur við TM undirritaður

Fimleikasamband Íslands(FSÍ)hefur undirritað samstarfssamning við Tryggingamiðstöðina (TM) sem felur í sér að TM verður einn af aðalstyrktaraðilum FSÍ og um leið styrktaraðili að nýstofnuðum afrekssjóði fimleikasambandsins. Tilgangur afrekssjóðsins er að styrkja fimleikafólk vegna kostnaðar við æfinga- og keppnisferðir erlendis, þar sem helmingur fjármagns sjóðsins er úthlutað ár hvert en hinn helmingurinn er nýttur sem fjárhagsstofn til lengri tíma. Þannig nýtist sjóðurinn bæði núverandi afreksfólki okkar sem og komandi kynslóðum.  Þessi hugmynd er ný af nálinni hjá FSÍ og er jákvætt skref til að auðvelda afreksfólki okkar varðandi fjárhagslegu þætti á ferðum erlendis.  

Til gamans má geta þess að stjórn afrekssjóðs fimleikasambandsins, sem skipuð er fyrrum fimleikastjörnum, hefur verið ötul við að safna svokölluðum vildarvinum sem greiða visst mánaðargjald í sjóðinn. Stjórnin vill nota tækifærið og þakka fyrir góðar móttökur. Á næstu mótum vetrarins mun sú söfnun halda áfram. Um leið og við óskum öllu fimleikafólki til hamingju með þennan stóra áfanga viljum við þakka TM fyrir að stíga þetta skref með fimleikahreyfingunni.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Þorgerði L. Diðriksdóttur, formann FSÍ, og Sigrúnu E. Elíasdóttur, verkefnastjóra hjá TM, skrifa undir samstarfssamninginn.