Þriðjudagur, 28 Maí 2013 19:01

Tvö gull á Smáþjóðaleikunum

Í dag fór fram fyrri keppnisdagurinn í fimleikum á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg.  Fyrr í dag þá fékk karlaliðið okkar bronsverðlaun í liðakeppni en seinnipartinn kepptu konurnar.  Þær áttu frábæran dag og unnu liðakeppnina nokkuð örugglega en Lúxemborg varð í öðru sæti og Kýpur í því þriðja.  Í fjölþraut þá vann Dominiqua Alma Belany örugglega og þar með sitt annað gull, að auki þá varð Thelma Rut Hermannsdóttir í 3.sæti í fjölþraut.  Þetta var í heildina frábær dagur hjá íslensku fimleikafólki, tvö gull og tvö brons sem er með betri árangri á alþjóðlegu móti.  Íslensku keppendurnir keppa svo í úrslitum á einstökum áhöldum á fimmtudaginn og verða Dominiqua og Thelma þar í aðalhlutverki ásamt Ólafi og Róbert sem unnu sér rétt til að keppa í úrslitum fyrr í dag. Í íslenska kvennaliðinu í dag voru Dominiqua Alma Belany, Hildur Ólafsdóttir, Jóhanna Rakel Jónasdóttir, Norma Dögg Róbertsdóttir og Thelma Rut Hermannsdóttir.  

Á meðfylgjandi mynd má sjá kvennaliðið með gullverðlaunin sín, frá vinstri Hildur Ólafsdóttir,Jóhanna Rakel Jónasdóttir, Dominiqua Alma Belany,Norma Dögg Róbertsdóttir og Thelma Rut Hermannsdóttir. 

Úrslitin úr liðakeppni wag og í fjölþraut wag má sjá í viðhenginu.