Mánudagur, 01 Júlí 2013 09:04

Dominiqua sigursæl í Hollandi

Fimleikakonan Dominiqua Alma Belányi gerði það gott á alþjóðlegu móti í Hollandi um helgina en lið Gróttu frá Seltjarnarnesi sendi átta keppendur til leiks á mótinu sem nefnist Fame Svod Open.

Aníta María Einarsdóttir og Dominiqua Alma Belányi kepptu í fullorðinsflokki. Dominiqua sigraði í fjölþraut á laugardaginn og Aníta varð í þriðja sæti.  Úrslit á áhöldum fóru fram á sunnudaginn, Dominiqua og Aníta kepptu á öllum áhöldum með góðum árangri. Dominiqua sigraði á stökki, tvíslá og gólfi og varð í öðru sæti á slá.  Aníta var í öðru sæti á tvíslá og gólfi og þriðja sæti á stökki og slá. 

Grethe María, Nanna Guðmundsdóttir og Selma Eir Hilmarsdóttir kepptu í unglingaflokki A og urðu í þriðja sæti í liðakeppninni. Nanna komst í úrslit á stökki, slá og gólfi og varð í 2. sæti á stökki.  Selma komst einnig í úrslit á stökki og Grethe var fyrsti varamaður á slá. 

Arndís Ásbjörnsdóttir, Elín Birna Hallgrímsdóttir og Hrund Guðmundsdóttir kepptu í unglingaflokki B. Arndís og Hrund komust í úrslit, Arndís á stökki þar sem að hún varð í 3. sæti og Hrund á slá.

Næstu verkefni hjá Dominqua er þátttaka í Universiade, Kazan Rússlandi, 6-17.júlí næstkomandi.