Fimmtudagur, 19 September 2013 09:53

Tímamótasamningur við RÚV

Í gær undirrituðu Fimleikasamband Íslands og RÚV undir tímamótasamning fyrir fimleika á Íslandi. FSÍ og RÚV hafa samið um samstarf til næstu þriggja ára sem felur í sér einkarétt RÚV til sjónvarpsútsendinga frá öllum helstu fimleikamótum á þeim tíma.

Um er að ræða Íslands- og bikarmót í hópfimleikum auk Evrópumeistaramótsins sem haldið verður hér á landi á næsta ári og Norðurlandamótsins sem verður haldið hér 2015.  Þá eru í samningnum útsendingar frá Íslandsmótum og bikarmótum í áhaldafimleikum og Íslandsmóti í svokölluðu Fimleikaati.

Með samningnum verður tryggð viðameiri og glæsilegri umfjöllun um fimleika hér á landi en áður hefur verið auk þess sem leitast verður við því að sinna erlendum stórmótum verði því komið við.

Fimleikasambandið er að vonum mjög ánægt með þennan samning og hefur miklar vonir til að samningurinn muni auka við umfjöllun um íþróttina í íslenskum fjölmiðlum. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá Kristínu H. Hálfdánardóttur, íþróttastjóra RÚV, og Þorgerði L. Diðriksdóttur, formann FSÍ, handsala samninginn.